Söguheimar

Sumarbúðir Söguheima fyrir börn á aldrinum 8 til 13 ára.

Sumarbúðirnar eru haldnar í græna dalnum í Waldorfsskólanum í Lækjarbotnum. Í sumarbúðum Söguheima er farið inn í eina sögu hverja viku. Í þessum fallega dal ætlum við að reisa tjöldin okkar og kveikja varðelda undir gullnu þaki heimsins. Við munum horfa á eftir miðnætursólinni, sofa í tjöldunum og sitja við eldinn. Á þessu ári ætlum við að fylgja eftir sögunni um bræðurna Ljónshjarta eftir Astrid Lindgren.

Við fylgjum eftir þeim bræðrum Snúði og Jónatan Ljóshjarta í Nangijala þar sem maður hleypur um og veiðir í ánni, þar sem að söngvar hljóma við varðeldinn á kvöldin og þar sem hver dagur er ævintýri eins og í riddarasögu.

Þar gerast þó líka hlutir sem ættu ekki að vera til í neinu ævintýri, því við munum þurfa að berjast við hinn vonda Þengil sem stjórnar öllu af ógn og valdi með ógurlegan drekann Kötlu sér við hlið og hann hefur lagt undir sig Þyrnirósardal. Mun okkur takast að sigrast á Þengli, Kötlu og hinni miklu ógnarstjórn sem Þengill hefur á öllu í Mangijala?

Á daginn munum við hlaupa um, Klappa hestunum okkar, fara að hitta Soffíu gömlu og dúfurnar hennar og hjálpa Jónatan og Kalla í bardaganum við Þengil. Hver veit nema að við munum sjá orminn í Karmafljóti? Við munum þurfa að laumast framhjá vörðum og finna leiðir inn í drekahella og muna að hið góða sigrar alltaf. Ásamt þessu er örugglega líka í boði að æfa sirkus og dans, læra að tálga, skjóta af boga, mála úti með vatnslitum, teikna og segja sögur.

Við ætlum að elda sem mest úti á hlóðum undir berum himni og gera ljúffengan mat. Á kvöldin eru varðeldar og leiðbeinendur sýna leikþætti úr söguni og skapa sögusvið fyrir næsta dag. Við ætlum að fylgja hjartanu og þeirri sannfæringu að sama hversu lítilfjörllegur maður er, þá geta allir verið hugrakkir og góðir.

Lækjarbotnar eru ákjósanlegur staður fyrir slíkar hugmyndir og þar er aðstaða þar sem hægt er að tjalda við hliðina á skógi og rennandi læk, kveikja eld og elda á hlóðum, hlaupa út um hvippinn og hvappinn, upp á fjallstind, tína ber og grænmeti og fela sig í gjótum í hrauninu.

Við ætlum að leika okkur í söguheimi sögunnar, fá að upplifa hana, heyra og reyna. Tileinkum okkur boðskap hennar og vinnum með hann á ýmsan hátt. Lærum að vera úti í náttúrunni, umgangast náttúruöflin vind, vatn, eld og jörð.

Skráning og nánari upplýsingar um námskeið eru á heimasíðu Söguheima 

Nánari upplýsingar veita Ívar í síma 892 – 1142 og Lui í síma 858 – 7443.

Einnig er hægt að senda póst á netfangið sirkusnamskeid@gmail.com og soguheimar@gmail.com