Skógræktarfélag Kópavogs

Útivistar – og leikjasvæði

Skógræktarfélag Kópavogs er stofnað 25. september 1969 og er með útivistarsvæði í Guðmundarlundi og að Fossá í Hvalfirði. Þau eru öllum opin og skemmtileg til útivistar. Skógræktarfélagið hvetur alla til að nýta þessi svæði sér til ánægju og heilsubótar.

Guðmundarlundur er ofan við Þingahverfið og hesthúsin á Heimsenda. Í Guðmundarlundi er allmikið skógarsvæði með fjölbreyttum stígum og lundum sem henta vel til hreyfingar og leikja. Skógur hefur góð áhrif á okkur andlega, svo að þangað er líka gott að fara til að slaka á. Skógurinn gefur gott skjól fyrir vindi og því hægt að stunda útiveru þar í næstum hvaða veðri sem er. Ekið er í Guðmundarlund um Landsenda.

Stígarnir eru ýmist á jafnsléttu eða misbröttum brekkum. Kurl er á stígunum í skóginum, en malarstígar eru við flatirnar og malbikaður stígur liggur gegnum lundinn. Þarna er hægt er að ganga, skokka, hjóla og fara í ýmsa leiki. Einnig eru stórar grasflatir sem henta fyrir boltaleiki og fleira.

Upplagt er að koma með nesti með sér til að borða í einhverjum lundinum. Í Guðmundarlundi er hægt að leigja grillaðstöðu en hún er til staðar á 3 stöðum ásamt borðum, bekkjum og grillhúsi. Í lundinum er stór og fallegur blómagarður með bekkjum (Hermannsgarður).

Umsjón með Guðmundarlundi hefur Bernhard Jóhannesson, hægt er að ná í hann í síma 894 9112 og skogkop@gmail.com

Fossá í Hvalfirði er skógræktarjörð og útivistarsvæði á vegum skógræktarfélags Kópavogs, skógræktarfélags Mosfellsbæjar, skógræktarfélags Kjalnesinga og skógræktarfélags Kjósahrepps. Skógurinn var gerður að opnum skógi 27. ágúst 2011 og þá vígður lundur sem nefndur var ” Vigdísarlundur”. Þar er mikill gróður, skógur með merktum gönguleiðum og þegar líða tekur á sumar er hægt að tína ber og sveppi. Öflug uppbygging er á áningastöðum og útivistaraðstöðu á Fossá, þar eru borð og bekkir og útigrill eru væntanleg.

Það geta allir gerst félagar í Skógræktarfélagi Kópavogs og hvetjum við alla áhugasama til þess.

Nánari upplýsingar eru á vef  skógræktarfélagsins, þar er einnig að finna upplýsingar fyrir þá sem óska eftir að halda samkomur í Guðmundarlundi.

Verið velkomin á útivistarsvæði Skógræktarfélags Kópavogs.