Sumarið 2023 verður boðið upp á þrjú tímabil. Sumarbúðirnar eru ætlaðar börnum á aldrinum 9 – 14 ára. Það er líf og fjör að mæta í sumarbúðir og kynnast nýjum krökkum, náttúrunni og fara í spennandi dagskrá. Dæmi um dagskrá í sumarbúðum skáta er klifur, vatnasafarí, þrautabraut, bátar, bogfimi, leikir, þrautir, kvöldvökur og ýmislegt fleira.
Sumarbúðirnar eru reknar af skátahreyfingunni og eru gildi hennar höfð til hliðsjónar í öllu starfi. Sumarbúðirnar hafa verið starfræktar að Úlfljótsvatni síðan 1941. Framan af var aðeins um að ræða sumarbúðir fyrir skáta, og sváfu þeir fyrstu árin í tjöldum. Útilífsmiðstöð skáta Úlfljótsvatni er í Grafningi, skammt frá Ljósafossvirkjun. Jörðin er í eigu skáta og Skógræktarfélags Íslands. Útilífsmiðstöðin hefur um áratuga skeið verið aðalbækistöð skáta á Íslandi. Þar er miðstöð foringjaþjálfunnar skáta, aðstaða fyrir skátamót, skólabúðir, sumarbúðir og tjaldsvæði fyrir almenning.
Aðstaða til útivistar gerist vart betri, fjöldi leiktækja og þrautabrauta, stærsti klifur- og sigturn landsins og margar skemmtilegar gönguleiðir.
Starfsmennirnir eru stoltir af því að bjóða upp á metnaðarfulla dagskrá sem nær vel til krakka. Í sumarbúðunum eru allir þátttakendur og takast á við spennandi viðfangsefni í náttúrulegu og öruggu umhverfi.
Þátttakendur gista í 4-8 manna herbergjum í JB-skála og DSÚ-skála á aðalsvæði Útilífsmiðstöðvarinnar. Öll herbergi eru með kojum. Þátttakendum verður raðað saman í herbergi þegar komið er á svæðið og geta vinir óskað eftir því að vera saman í herbergi.
Nánari upplýsingar um námskeiðin, námskeiðsgjald og skráningar er að finna hér:
Útilífsmiðstöð skáta,
Úlfljótsvatni. 801 Selfoss
Sími 482 – 2674
Heimasíða sumarbúða